Hvað er Bowentækni?

Orðið “reifar” vísar til þess að “binda saman”, í gamalli merkingu nánar tiltekið að sveipa dúkræmu utan um ungbörn. Bandvefsreifar er aftur hugtak sem er notað um tengingarnar á bandvef líkamans og gera hann að einni heild. Rannsóknir á bandvefnum og bandvefsreifum líkamans eru orðnar að vaxandi vísindagrein í dag.

Bandvefsreifar eru ýmist teygjanlegar eða ekki. Þær ná utan um líffæri og stuðla að stöðugleika, sveigjanleika og gera hreyfingar mögulegar. Almennur skilningur á vöðva- og beinakerfi líkamans hefur tekið stakkaskiptum á 21. öldunni sem afleiðing á nýjum skilningi á bandvefsreifum hans.

Bowen snertingin

Bowen snertingin er einstök í meðferðarheiminum. Henni er best lýst sem rúllandi hreyfingu sem er beint að sérstökum punktum líkamans og felur í sér að hreyft er við mjúkvefjum hans á sérstakan hátt. Bowentæknirinn notar þumal- og vísifingur til þess að örva bandvefinn og taugaenda, sem aftur senda viðeigandi boð til heilans.

Hönd Bowentæknisins má ekki renna til eða hoppa yfir yfirborð húðarinnar, heldur notar hann slaka sem myndast í yfirhúðinni til þess að hreyfa hana yfir undirliggjandi vef. Hver hreyfing nær þar af leiðandi aðeins yfir lítið svæði í einu, eftir því hversu mikill slaki verður á húð Bowenþegans.

Mikilvægi tveggja mínútna hléanna

Tom Bowen hafði sérstaka hæfileika til að meta á nákvæman hátt hið minnsta ójafnvægi í líkamanum og gat þess vegna venjulega hafið meðferð umsvifalaust. Hann valdi þá Bowen snertingu sem átti við og skildi svo skjólstæðinginn eftir einan í meðferðarherberginu í nokkrar mínútur. Þá kom hann til baka og athugaði hvernig líkaminn hafði svarað snertingunum. Í kjölfarið vó hann og mat hvaða snertingum væri þörf á til viðbótar, ef einhverjum.

Hléin á milli snertinga eru eitt aðaleinkenni Bowen og eru mjög mikilvæg þar sem þau koma heilunarferlinu í gang. Hléin eru mislöng eftir einstaklingum og meðferð sem þeir fá en að meðaltali um tvær mínútur. Það getur verið erfitt að meta lengd þeirra í upphafi en með tímanum ná Bowentæknar góðri færni í því að reikna út hvað er best fyrir Bowenþegann.

Hléin eru líklega sá hluti Bowen sem minnstur skilningur ríkir um en þó er það á meðan þeim stendur sem breytingarnar á líkamsstarfseminni fara í gang. Grunnhugmyndin er sú að vinnan sjálf sé í höndum meðferðarþegans en ekki Bowentæknisins. Til að mögulegt sé að ná þessu fram þarf líkaminn næði og tíma.

Hvernig virkar það?

Heilinn er eitt áhugaverðasta líffæri mannsins. Hann móttekur upplýsingar frá skynfærunum á borð við ljós, hljóð, verki og hreyfingu, og túlkar þær. Hér er því um að ræða meðvituð samskipti líffæranna. Vaxtargeta heilans gerir taugafrumum hans kleift að mynda nýjar taugatengingar þegar upp koma nýjar aðstæður og við verðum fyrir áður óþekktu áreiti, þar með talið örvun við snertingu. Heilinn sendir frá sér um það bil 600.000 taugaboð til líkamans á hverri sekúndu. Þau koma svo aftur til hans með upplýsingar sem heilinn túlkar á nýjan leik og sendir aftur frá sér. Alltaf þegar við finnum, heyrum, sjáum eða jafnvel hugsum eitthvað nær heilinn í okkar fyrri reynslu til þess að geta flokkað skynjunina og valið réttu viðbrögðin við henni.

Heilinn getur hins vegar ekki flokkað upplýsingarnar samstundis þegar um er að ræða Bowen snertingu þar sem þær nægja ekki einar og sér. Einmitt þegar heilinn biður um frekari upplýsingar er Bowentæknirinn venjulega farinn fram og þess vegna þarf heilinn að senda sérstök boð á meðferðarsvæðið til að fá þær fram. Ef Meðferðarþeginn er liggjandi svarar líkaminn nær undantekningalaust með tafarlausri, djúpri slökun. Margir lýsa einnig fiðringi eða hita á svæðinu sem unnið er með. Sumum finnst jafnvel eins og Bowentæknirinn væri enn að snerta líkamann þó að hann væri ekki á svæðinu.

Annað sem erfitt er að útskýra er hversu litla “meðferð” Bowenþeginn fær í hvert skipti. Því til viðbótar finnst sumum þeir ekki hafa fundið svo til neinar framfarir á meðan Bowentæknirinn meðhöndlaði þá, aðrar en góða slökun.

Svörunin við Bowenmeðferðinni næstu daga á eftir er hins vegar gjarnan í öfugu hlutfalli við hina mjúku og léttu snertingu. Stirðleiki, særindi, höfuðverkur og jafnvel sú tilfinning að hafa lent í árekstri eru algengar lýsingar sem gefa einmitt til kynna að heilinn og líkaminn séu komnir á fullt í heilunarferlið. Eftir að það er byrjað tekur það venjulega stuttan tíma og ekki er óalgengt að jafnvel langvarandi verkir minnki eða hverfi við tvö eða þrjú skipti í meðferð.

Bowenmeðferð hefur fram til þessa oftast verið beitt við heilsuvanda tengdum vöðvum og beinum en hún getur einnig komið að gagni gegn vefjabólgum og öðrum úrlausnarefnum í vefjum líkamans. Margir tala um að einkenni á borð við asthma, mígreni, iðraólgu (e. Irritable Bowel Syndrome), ófrjósemi og önnur frjósemisvandamál hafi minnkað eða horfið.

Að þessu sögðu þurfum við að muna að ekkert í lífinu gefur öruggan árangur og það á við um Bowen líka. Ef líkaminn svarar meðferðinni getur hann, og mun, hafið heilunarferlið. Ef hann sýnir ekki svörun, þá er í öllu falli enginn skaði skeður.